Mermaid verður einstök í sinni röð bæði í útliti, þeirri þjónustu sem hún býður upp á og vegna einstakrar staðsetningar.
Útlit mannvirkja mun bera svipmót svæðisins og þeirrar strandmenningar sem mótast hefur í gegnum aldirnar. Þaraböðin eru einstök upplifun sem gestir gleyma seint, hvort heldur er þeirri slökun sem þau veita eða vegna magnaðra áhrifa sem þau hafa strax á húð og hár. Er þá ónefnd sú ævintýralega upplifun að baða sig í lungamjúkum nýskornum þaranum. Að auki stendur gestum til boða að njóta nuddmeðferða og heitar laugar eru á útisvæði að ógleymdu jurtagufubaði og sauna. Þá mun veitingahús Mermaid sérhæfa sig í íslenskum sjávarréttum undir austurlenskum áhrifum.
Að koma svo metnaðarfullu verkefni í gang á viðkvæmu svæði og vinsælum ferðamannastað tekur töluverðan tíma, það kallar á breytingar bæði á aðal- og deiliskipulagi en þeirri vinnu er nú að ljúka. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir taki um tvö ár. Gangi áætlanir eftir má gera ráð fyrir opnun vorið 2025. Stærð mannvirkja verður um 1.200 m² og starfsemin kallar á töluverðan tækjabúnað. Heildar fjárfestingarkostnaður er áætlaður um 1.750 m.kr.
Verkefnið




Sérstaða Mermaid verður fólgin í staðsetningu fyrir opnu Atlantshafinu, þar sem megin áherslan er lögð á þarabað. Gestir fá tækifæri til að upplifa mögnuð áhrif þarabaða, undir áhrifum krafta íslenskrar náttúru.
Vörur og þjónusta
Í böðunum er ferskur þari ný skorinn úr þaraskógi Norður-Atlantshafsins, hitaður upp með heitu vatni úr iðrum jarðar. Einnig verður í boði nudd og jurtagufubað úr blöndu íslenskra og austurlenskra jurta, ásamt þremur misheitum útilaugum. Það verður ógleymanleg upplifun að liggja í heitu mjúku þarabaði hvort sem er undir miðnætursól, dansi norðurljósanna eða í alvöru vetrarveðri, skafrenningi og ólgandi briminu við ströndina. Í veitingasal verður aðaláhersla lögð á íslenska sjávarrétti úr heimabyggð undir austurlenskum áhrifum. Veitingasalur og spa verða að mestu aðskilið en spa-gestir geta fengið mat og drykk til neyslu í setustofu baðhússins eða heimsótt veitingasalinn eftir böðin. Mannvirkin eru lágreist, á einni hæð og falla að umhverfi fjörukambsins, ásamt útisvæði sem er fyrir opnu hafi.
Veggir og þak mannvirkisins sem snúa að aðkomunni á Garðskagann, verða með torf- og steinhleðslum. Torfmön (í anda Skagagarðsins) felur bílastæði svo ásýnd mannvirkja fellur vel að umhverfinu. Veggir sem snúa að fjörunni og útilaugum verða klæddir grófum rekavið og ryðguðu corten stáli. Við hönnun lauga og innviða staðarins er áhersla lögð á að nýta náttúruleg form kuðunga, skelja og fjörugrjóts, til að skapa þau hughrif sem til þarf. Þau hughrif sem gestir upplifa af mannvirkinu skipta miklu máli við heildarupplifunina og til þess að hlúa að henni er hluti innviða hannaður með tilvísun í skipströnd og strandmenningu svæðisins. Við hlið baðhússins við fjöruna verður boðið upp á gjaldlausa aðstöðu, útibúningsklefa og sturtur fyrir almenning til að auðvelda ástundun sjóbaða.


Setu- og slökunarstofa
Í notalegri setu- og slökunarstofu baðhússins geta gestir slakað á við opið eldstæði, eftir böð eða á milli meðferða. Þar geta gestir einnig pantað sér létta rétti og drykki frá veitingahúsi okkar.

Nudd
Fjögur nuddherbergi verða í boði, tvö tveggja manna og tvö eins manns. Boðið verður upp á fjölbreytt nudd, jafnt hefðbundið slökunarnudd sem Thai-nudd, í mismunandi langan tíma og allt í notalegu umhverfi.

Snyrtivörur og minjagripir
Í afgreiðslunni verður boðið upp á heilsubótar- og snyrtivörur til kaups sem m.a. verða framleiddar úr þörungum. Þar á meðal verða húðkrem, sjampó, sápur og fæðubótarefni ásamt öðrum sérútbúnum gripum sem minna gesti á komu sína í Mermaid-spa.

Jurtagufubað
Jurtagufubað á uppruna sinn í Ayurveda fræðunum og hefur verið stundað í hundruð ára í Austurlöndum fjær, bæði til heilsubóta og lækninga. Gufa er dregin í gegnum sérstaka blöndu austurlenskra og íslenskra jurta, svo sem sítrónugras, turmeric, kamforu, tamarind, fjallagrös og hvönn, áður en hún er leidd inn í gufubaðsklefann. Jurtagufubaðið hefur sótthreinsandi áhrif á húðina, eykur orku og léttir lund. Jurtagufubaðsklefinn verður á innisvæðinu en með aðgengi bæði frá inni- og útisvæði.

Útisvæði
Fimm pottar verða á útisvæði; tveir kaldir 5-12°C, tveir heitir 38°C og einn 43°C. Þetta verða gegnumstreymispottar með hreinu vatni, án klórs eða viðbættri sýru. Pottarnir verða við fjörukambinn með útsýni yfir sjóinn og Garðskagann. Á útisvæðinu verða saunabaðið sem verður í anda gamals torfbæjar og aðstaða til að sitja og njóta veitinga eða þess veðurs sem almættið býður upp á hverju sinni. Frá útisvæði verður hægt að fara beint niður á strönd og stunda sjóböð.

Veitingar
Veitingastaðurinn getur tekið 100 manns í sæti í veitingasal og annað eins í setustofu og á útisvæði bað- og veitingahússins. Lögð verður áhersla á metnaðarfulla sjávarrétti úr hráefni af svæðinu en undir áhrifum frá Suðaustur-Asíu.
Það verður rómantískt andrúmsloft á staðnum og innréttingar með vísan til fjöru, sjávar- og strandmenningar svæðisins. Gott útsýni verður frá veitingasal út á ströndina, vitana og sjóinn. Góð og fagmannleg þjónusta verður á staðnum sem undirstrikar gæði. Gestir baðhússins geta notið léttari rétta og drykkja frá veitingastaðnum, í setustofu og á útisvæði.

Þaraböðin
Sérvalinn handtíndur þari og þang eru sett í körin ásamt heitum sjó. Sjórinn er blanda af lifandi örverum, vítamínum, próteinum, steinefnasöltum og smáþörungum, sem innihalda efni eins og kopar, sink, joð og selen. Á meðan á þarabaði stendur smjúga þessi efni í gegnum húðina, stærsta líffæri mannslíkamans og næra hann. Þarinn og þangið eru einnig full af silkimjúkum olíum sem fylla líkamann vellíðan. Við baðið slaknar á vöðvum og afeitrunaráhrifin vinna á líkamanum. K-vítamínið sem er í þanginu hefur góð áhrif á nýrnahetturnar sem hjálpar til við að viðhalda góðu hormónajafnvægi. Þangböð eru notuð víða erlendis m.a. til að létta sársauka við gigt og liðagigt.
Frá náttúrunnar hendi inniheldur þari mikið magn af joði. Það gengur inn í húðina á meðan baðast er og hefur m.a. jákvæð áhrif á exem, þurra húð og hár, mildar vöðvaverki og eykur blóðflæði. Það verða fjögur þarabaðsherbergi með tveggja manna körum og tvö herbergi með eins manns kari. Gestir liggja í heitu þarabaðinu í 45 mínútur í kyrrð og ró.

Mermaid
Mermaid – Geothermal Seaweed Spa er metnaðarfullt verkefni sem felst í því að byggja upp hágæða heilsulind við fallega sandfjöru við Garðskaga á Reykjanesi.